top of page
Search

Æfingar á óstöðugu undirlagi: Gott eða slæmt?

Við lifum á tíma þar sem allir hafa rödd og geta komið sinni hugmyndafræði á framfæri. Það er að miklu leyti mjög gott en í einhverjum tilfellum getur það líka verið slæmt. Nú er ég að tala um þjálfun og þjálfara sem eru að koma sínu á framfæri í gegnum samfélagsmiðla.


Sumar aðferðir sem þú finnur á þeim miðlum eru bara hreinlega hættulegar og eiga ekki heima í þjálfun. Það er því nauðsynlegt fyrir almenning að geta greint á milli og valið aðferðir sem henta í stað þess að apa upp vitleysuna eftir „instagram“ þjálfurum sem hafa mikið af fylgjendum því æfingarnar sem þeir setja upp virðast krefjandi og flottar.


Mynd: www.aaronchew.ca


Þjálfun á óstöðugu undirlagi á sér stað og stund í þjálfun en að mínu mati á einstaklingur sem er heill heilsu ekki að notast við þannig þjálfun. Það er ansi ólíklegt að þú stundir þína íþrótt á óstöðugu undirlagi. Þegar talað er um þessa aðferð í þjálfun, þá er yfirleitt verið að tala um að nota áhöld eins og AirEx púða, BOSU bolta o.fl.


Pælingin á bakvið þjálfun á óstöðugu undirlagi er að þjálfa upp jafnvægi og auka stöðugleika en flestir fá alveg næga janfvægis- og stöðugleikaþjálfun með því að framvkæma fjölbreyttar æfingar og hreyfingar á öðrum fæti á sokkunum. Vöðvavirknismælingar (EMG, electromyographic) sýna að ef æfingin/hreyfingin verður of krefjandi og þú ert að berjast við að halda jafnvægi, þá minnkar vöðvavirkni og æfingin missir marks. Þú ert því hvorki að þjálfa upp jafnvægi, né styrk og stöðugleika.


Prófaðu að standa á öðrum fæti á sokkunum, teygja þig fram með báðar hendur og skjóta lausa fætinum aftur (sjá mynd fyrir neðan). Reynir á jafnvægi og stöðugleika ekki satt? Ef þetta er ekki nægilega krefjandi fyrir þig, prófaðu að halda á medicine bolta í gegnum hreyfinguna. Þar ertu komin/n með næga jafnvægis- og stöðugleikaþjálfun án þess að þurfa að notast við óstöðugt undirlag. Nú ef þetta er allt mjög auðvelt, prófaðu þá að loka augunum.



Með því að bæta óstöðugu undirlagi við, þá ertu að koma í veg fyrir að þú getir notað almennilegar þyngdir og ert því að draga úr þeim möguleika á að bæta styrk og kraft í þessum hreyfingun, því það fer of mikil orka í að halda jafnvægi.


Bestu jafnvægis- og stöðugleikaæfingarnar eru hreinlega þær æfingar sem hjálpa þér að bæta styrk og kraft á öðrum fæti (unilateral) í gegnum hreyfiferilinn. Ef þú getur notað þung handlóð og gert æfingar eins og t.d. Bulgarian Split Squat eða RDL á öðrum fæti á sokkunum án vandræða, þá er ég nokkuð viss um að styrkur, stöðugleiki og jafnvægi er í ágætis málum.


En hvenær ættir þú að vinna á óstöðugu undirlagi?

Mögulega þegar þú ert að vinna upp styrk og skynjun (e.proprioception) eftir meiðsli í neðri líkama eins og t.d. ökklameiðsl. Styrktarþjálfarar eiga sjaldnast að láta sína skjólstæðinga vinna á óstöðugu undirlagi því það er hlutverk sjúkraþjálfara.


Styrktarþjálfarar sjá ekki um endurhæfingu alveg eins og sjúkraþjálfarar sjá ekki um styrktarþjálfun. Þverfagleg nálgun er samt alltaf best þar sem fagfólk vinnur saman og samksipti eru lykilatriði þegar íþróttafólk fer úr því að vera í endurhæfingu yfir í að gera sig tilbúið að spila sína íþrótt.


Ég starfaði sjálfur á sjúkraþjálfarastöð í Noregi nokkur ár og vann náið með sjúkraþjálfurum. Ég lærði mikið af því og besta þjónustan sem hægt er að bjóða íþróttafólki upp á er þegar sérfræðingar í endurhæfingu sjá um endurhæfingu og sérfræðingar í styrktarþjálfun sjá um styrktarþjálfun. Samskiptin þar á milli þurfa að vera góð svo ekkert skolist til í þessu mikilvæga ferli í að koma sér aftur á völlinn.

125 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page