top of page
Search

Styrktarþjálfun á keppnistímabili: "Micro dosing"

Nú er mars mánuður hálfnaður og langt er liðið á keppnistímabilið í körfuboltanum hér heima. Leikmenn sem spila mikið í sínum liðum eru mögulega farnir að finna fyrir álaginu og eitthvað er um hnjask hér og þar. Það vill oft verða að þegar álagið er orðið mikið að þá er það styrktarþjálfunin sem er fyrst tekin af dagskrá á seinni hluta keppnistímabilsins.Þið sem hafið lestið pistlana mína vitið að ég er mikill talsmaður styrktarþjálfunar yfir allt árið, með stuttum hvíldartímabilum þar sem það passar inn í ársskipulagið. Það getur hins vegar verið krefjandi að skipuleggja styrktarþjálfun inn í æfingaviku sem spannar 5-6 æfingar og 1-2 leiki.


Styrktaræfingar í miklu álagi þurfa ekki að vera langar og geta verið mjög skilvirkar þó við séum aðeins að tala um 20-30 mínútna æfingar. Ég hef notað „micro dosing“ aðferð í nokkur ár og hefur það gefið góða raun. Eins og nafnið gefur til kynna að þá er smáum skömmtum af styrktarþjálfuninni skammtað á liðið í miklu álagi. Áherslurnar í þjálfuninni er lágt þjálfunarmagn / há ákefð. Þjálfunarmagnið er oft um 40-60% minna en á undirbúningstímabilinu og ef skipulagið er gott þá eru góðar líkur á að leikmenn viðhaldi eða jafnvel bæti þætti eins og styrk, hraða og kraftmyndun.


Markmiðið er að búa til nógu mikla örvun til þess að virkja og vinna í þeim kerfum sem þurfa að vera ON og á sama tíma er einnig dregið úr þjálfunarmagni (e. Volume) svo þreyta sitji ekki í leikmönnum og dragi úr afköstum og auki jafnvel líkur á meiðslum.


Í miklu álagi þá snýst þjálfunin samt sem áður ekki um það hversu flott og gott æfingakerfið er. Mikilvægasti þátturinn er samskipti fagaðila sem sinna liðinu og styrktarþjálfarinn þarf að setja upp álagið í samráði við íþróttaþjálfarann og ræða mál einstakra leikmanna við sjúkraþjálfara svo hægt sé að tryggja hámarks afköst.


Vel skipulögð styrktarþjálfun á keppnistímabili er alltaf að fara að hjálpa þér og þínum markmiðum. Það er hins vegar auðvelt að fara yfir strikið og gera of mikið sem kemur niður á afköstum. Ef þú ert ekki viss hvað þú átt að æfa mikið, þá mæli ég með að þú sækir þér aðstoð hjá styrktarþjálfara.

52 views0 comments

Comments


bottom of page