Vinsældir Ólympískra lyftinga (e. weightlifting) hafa aukist gríðarlega síðustu ár. Vinsældirnar má líklega rekja til Crossfit og er íþróttin orðin mun sýnilegri en hún var hér áður. Ég elska Ólympískar lyftingar og finnst gaman að djöflast í þeim sjálfur. En eru þær góðar fyrir annað íþróttafólk en þau sem stunda íþróttina sjálfa sem ólympískar lyftingar eru?
Hvað eru Ólympískar lyftingar?
Íþróttinni er skipt upp í tvær greinar. Jafnhending (e. Clean & Jerk) og snörun (e. Snatch). Jafnhending er þegar stöng er lyft í tveimur hreyfingum upp fyrir höfuð. Fyrri hreyfingin er frívending (e. clean) og seinni hreyfingin er jafnhöttun (e. jerk). Snörun er þegar stöng er lyft með útrétta arma frá golfi og upp fyrir höfuð í einni samfelldri hreyfingu. Þessum tveimur lyftum fylgja svo margar drillur og undirbúningsæfingar sem geta verið mjög góðar þegar kemur að þjálfun íþróttafólks.
Mynd: www.muscleandfitness.com
Hvað gera ólympískar lyftingar fyrir annað íþróttafólk?
Með góðri tækni getur þú bætt hjá þér styrk, hraða og kraft þar sem þessar hreyfingar eru með þeim allra kraftmestu sem þú gerir. Vel þjálfaðir einstaklingar í ólympískum lyftingum búa yfir gríðarlegum sprengikrafti.
Kraftmyndun líkamans getur stóraukist með ólympískum lyftingum sem getur skilað sér á völlinn ef við þjálfum aðrar hreyfingar samhliða.
Rannsóknir sýna að ólympískar lyftingar einar og sér geta bætt hopp, spretthraða og jafnvægi.
Hraða-styrkur (e. Speed strength). Ólympískar lyftingar eru aldrei gerðar hægt og með tímanum þá styrkist viðkomandi og þjálfast í því að hreyfa þunga hluti hratt.
Þú getur bætt samhæfingu.
„Triple Extension“ er vinsælt hugtak innan þjálfunar en ólympískar lyftingar kenna þér að rétta úr ökklum, hnjám og mjöðmum á hraðan og kraftmikinn hátt. Það er eitthvað sem allt íþróttafólk þarf að læra. Athugið að það eru til fjölmargar leiðir til að kenna triple extension sem gagnast íþróttafólki sem þarf að hoppa og spretta í sinni íþróttagrein.
Gallar við ólympískar lyftingar fyrir annað íþróttafólk
Fyrst og fremst tími. Það getur tekið langan tíma að kenna ólympískar lyftingar og þann tíma hef ég oft ekki með mínu íþróttafólki. Það eru allir að leitast eftir skjótum bætingum og ef ég þarf að eyða mánuðum í að kenna ólympískar lyftingar án þess að geta notað almennilegar þyngdir, þá get ég ekki tryggt miklar bætingar. Nema auðvitað tæknilegar bætingar í lyftunum sjálfum.
Þær tæknilegu bætingar skila sér hins vegar ekki á völlinn hjá öðru íþróttafólki. Ef einstaklingur kæmi til mín með góða reynslu í ólympískum lyftingum, þá mundi ég klárlega skoða það að nota æfingarnar í hans þjálfun. Í fjarþjálfun þá nota ég ekki ólympískar lyftingar einfaldlega vegna þess að ég er ekki á staðnum til þess að kenna þær og fylgjast með.
Í íþróttagreinum þar sem mikið er um hlaup, stefnubreytingar, hopp og lítið um fyrirfram ákveðnar hreyfingar, þá þurfum við að vinna í öllum hreyfiferlum. Ólympískar lyftingar eru aðeins framkvæmdar upp og niður (e. sagittal plane) og gætu því aldrei staðið einar og sér í æfingakerfi fyrir íþróttafólk í íþróttagreinum sem krefja þig um þessa eiginleika sem ég nefndi hér að ofan.
Áhætta vs. Ávinningur. Áhættan við ólympískar lyftingar er töluverð og góður styrktarþjálfari er nokkuð fær í að finna æfingar/hreyfingar sem búa til sömu örvun en með minni áhættu. Því minni sem reynslan er, því meiri er áhættan. Mundu, við erum að lyfta þungum hlutum hratt og við það myndast mikið álag.
Ökklar, hné, mjaðmir, bak, olnbogar, axlir og úlnliðir. Það er mikið álag á í gegnum þessi svæði og ef við ofmetum okkar eigin getu eða gerum tæknileg mistök, þá getur það leitt til meiðsla. Markmiðið er alltaf að tryggja stöðugar bætingar og halda íþróttafólki frá meiðslum.
Í fullkomnum heimi þar sem styrktarþjálfari fær að byrja að vinna með iðkendum þegar þeir eru ungir og fylgja þeim eftir í nokkur ár, þá er klárlega staður og stund til þess að nýta tímann í að þjálfa upp færni í Ólympískum lyftingum.
Staðan hjá mörgum styrktarþjálfurum í hinum ýmsu íþróttagreinum hér á landi er hins vegar sú að við fáum stutt "off season" þar sem við þurfum að tryggja hámarks bætingar og sjá til þess að íþróttafólkið komi inn í leiktímabil í sínu allra besta standi. Á meðan staðan er þessi, þá eyði ég ekki dýrmætum tíma í að kenna tæknilega flóknar æfingar þar sem ég hef aðrar aðferðir sem skila mér sömu bætingum.
Það má ekki gleyma að ólympískar lyftingar er íþróttagrein. Íþróttafólkið sem stundar þá grein fer í gegnum mikið af sérhæfðum aðferðum til að tryggja bætingar í sinni íþróttagrein sem tekur mikinn tíma. Ef þér finnst æfingarnar ómissandi í þína rútínu, þá er auðvitað alltaf hægt að skrá sig í íþróttina Ólympískar lyftingar.
Comentários