top of page
Search

Bremsurnar þurfa að vera í lagi!

Fyrir þá sem hafa lesið pistlana mína í gegnum tíðina hafa séð að ég skrifa mikið um sprengikraft sem er einn allra mikilvægasti þátturinn í okkar fögru íþrótt. En þegar maður býr yfir miklum hraða og sprengikrafti, þá er líka nauðsynlegt að vera góð/ur að bremsa (deceleration). Eðli íþróttarinnar er þannig að við erum alltaf að taka af stað, bremsa okkur niður og breyta um stefnu.


James Harden býr yfir gífurlegum bremsustyrk sem hjálpar honum að taka "Step back" skotin sín


Sérstök vinna þarf að fara fram í bremsustyrk. Ekki aðeins til þess að auka skilvirkni í hreyfingum á vellinum, heldur einnig til þess að minnka líkur á meiðslum. Þegar við bremsum á fullri ferð, þá fer gríðarlega mikill kraftur í gegnum skrokkinn. Ef styrkurinn til að taka á móti þessum krafti er ekki til staðar, þá eru líkur á að eitthvað gefi sig.


En hvernig æfingar þjálfa upp bremsustyrk? Leikmaður í körfubolta er stöðugt að vinna í þessum þætti með því auðvitað að taka stefnubreytingar og stökkva upp eftir að hafa verið að hlaupa á miklum hraða. Ein einfaldasta æfingin til þess að þjálfa upp bremsustyrk, er framstig (Forward lunges). Þessa æfingu þarf að byrja að nota hjá ungum iðkendum til þess að byggja upp styrk og færni í að bremsa eigin líkamsþyngd. Dæmið er einfalt, ef þú átt erfitt með að bremsa eigin líkamsþyngd úr kyrrstöðu, hvernig heldur þú að það sé fyrir líkamann þegar þú þarft að bremsa þig niður á fullri ferð?


Þegar aukin færni og styrkur er til staðar, þá er hægt að auka erfiðleikastig æfinga með því að bæta við þyngdum eða sjá til þess að æfingarnar séu meira krefjandi en á vellinum sjálfum. Við erum alltaf að leita að aukinni örvun á þessa þætti til þess að stuðla að bætingum. Ég nota mikið teygjur og medicine bolta þegar ég vinn með bremsun. Við þurfum einnig að passa að við séum að vinna í bremsun í öllum hreyfiferlum. Varnarvinna í körfubolta fer mikið fram hliðlægt og erum við því stöðugt að bremsa okkur af þegar við spilum vörn.


Hér eru nokkrir punktar:

  1. Byrjaðu strax að þjálfa upp bremsustyrk hjá ungum iðkendum.

  2. Að bremsa er færni (skill) og þó allir geti bremsað, þá þarf að þjálfa upp skilvirkni til þess að bæta afköst og minnka líkur á meiðslum.

  3. Bremsuþjálfun þarf að vera til staðar allt árið um kring - ekki gleyma þessum þætti þjálfunar.

  4. Bremsun á sér stað í flestum íþróttum þar sem hlaupið er. Því oftar sem þú þarft að stoppa og framvkæma stefnubreytingar, þeim mun mikilvægari verður bremsuþjálfunin.

  5. Góður bremsustyrkur hjálpar þér líka í hröðun - Íþróttafólk með góðan bremsustyrk er sneggra í öllum hraða- og stefnubreytingum.

  6. Almenn styrktarþjálfun þar sem lögð er áhersla á lengjandi vöðvaálag (eccentric loading) hjálpar þér að byggja upp bremsustyrk. Þú þarft samt einnig að vinna í hreyfingum sem líkja eftir álaginu í þinni íþróttagrein.

Hér fyrir neðan er stutt og skemmtilegt myndband sem ætti að gefa einhverja hugmynd um hvað bremsuþjálfun er:72 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page