top of page
Search

AFREKSUMHVERFI Í ÍÞRÓTTUM Á ÍSLANDI

Við tölum um að vilja komast lengra og ná betri árangri á heimsvísu í íþróttum en vitum við leiðarvísinn að þeim markmiðum?


Í deildum hér heima er verið að eyða miklum fjármunum í leikmenn, verið að sækja stóra prófíla úr sterkari deildum og verið að borga þeim ágætis laun. Oft eru það sjálfboðaliðar sem vinna baki brotnu í að sækja laun þessara leikmanna. 


Mörg lið búa við aðstöðuleysi og leikmenn sem hafa ekki þann búnað sem þarf til þess að efla sig sem leikmenn. Aðstaða til styrktarþjálfunar í mörgum liðum á Íslandi er í besta falli sorgleg eða jafnvel ekki til staðar. Aðstaða, þekking og búnaður til afkastamælinga er oft ekki til staðar. Fjármunum er sjaldan ráðstafað í að bæta þessa þætti sem ég tel að séu lykilþættir í að efla leikmenn frá unga aldri. Það væri óskandi ef það væru til fjármunir til þess að útbúa aðstöðu eins og í Miðgarði hjá Stjörnunni í Garðabæ.


Það er mjög oft verið að spara þegar kemur að því að ráða styrktarþjálfara og sjúkraþjálfara. Margir góðir styrktarþjálfarar vilja ekki starfa með íþróttafélögum vegna þess hve lítið er greitt fyrir þau störf og hversu litla þekkingu stjórnir íþróttafélaga og aðrir þjálfarar hafa á mikilvægi þess að stunda styrktarþjálfun og stýra álagi allt árið, frá unga aldri. 


Við erum með ungt og efnilegt íþróttafólk sem hefur allan þann metnað til þess að ná langt en þarf að sækja sér fræðslu og þjónustu út fyrir sitt íþróttafélag með tilheyrandi kostnaði, til þess að fá það utanumhald sem þarf í afreksíþróttum.


Hvar er fræðslan fyrir yngri leikmenn og foreldra þeirra þegar kemur að afreksþjálfun? Ef lágmarksþekking er ekki til staðar hjá foreldrum, þá er erfitt að selja þeim hugmyndina um það hversu mikið þarf að æfa og hversu mikilvægt er að stjórna álagi þegar krafan um að æfa og spila með mörgum flokkum er til staðar. Þjálfarar yngri flokka þurfa einnig að sækja sér lágmarksþekkingu varðandi þessa þætti.


Sem betur fer hefur orðið vitundavakning hjá sumum liðum hvað þetta varðar en þó er mikil vinna framundan svo að við getum gert þetta almennilega.

Hvað er til ráða? Hvernig er hægt að bæta utanumhald til afreksþjálfunar á Íslandi? Er hægt að tengja þjálfun einhvern veginn inn í skólakerfið? Er nauðsynlegt að koma upp afreksmiðsöð sem sinnir öllum þáttum afreksíþrótta? Annað?

11 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page