Ég minntist aðeins á afkastamælingar í síðasta pistli um afreksumhverfi í íþróttum á Íslandi. En hvað eru afkastamælingar? Margir þekkja styrktar-, hraða- og kraftmælingar sem er mikilvægur þáttur í framþróun íþróttafólks.
Af hverju erum við að mæla? Jú til þess að eyða út ágiskun og fá staðfestingu á því hvort aðferðafræðin sem unnið er með hverju sinni, virki. Mælingar eru mikilvægar fyrir íþróttafólkið þar sem jákvæðar niðurstöður mælinga ýta undir metnað og vinnusemi og fá íþróttafólkið til þess að treysta nálguninni sem unnið er með.
Einnig eru svokallaðar „readiness“ mælingar mjög gagnlegar til þess að kanna líkamlegt og andlegt ástand íþróttafólks á t.d. keppnisdegi eða fyrir mikilvægar gæðaæfingar þar sem ekki vænlegt til árangurs að vera ekki búin/n að ná endurheimt eftir álagið sem á undan er gengið. Þessar mælingar taka oft stuttan tíma en geta gefið miklar upplýsingar. (Meira um „readiness“ mælingar síðar).
Fyrir þjálfara og styrktarþjálfara þá eru mælingarnar mikilvægt verkfæri til að stýra álagi, fá staðfestingu á að liðið/einstaklingurinn sé á réttri leið og að aðferðafræðin virki. Tæknin í þessum málum hefur stóraukist á undanförnum árum en því miður búa fá lið við þau tæki sem kjörin eru til afkastamælinga. Í mörgum liðum er enn verið að notast við skeiðklukkuna og málbandið, þó það sé vissulega ágætt ef ekkert annað er í boði. Af hverju er þetta svona? Jú, peningar.
Að mínu mati ætti að mæla oft og reglulega í gegnum öll tímabil ársins. Því meiri gögn sem við söfnum um liðið og leikmenn, því auðveldara er að taka meðvitaðar og rökstuddar ákvarðanir.
Ég ætla að ganga svo langt og segja að ef styrktarþjálfari er ekki að sinna reglulegum afkastamælingum, þá er hann ekki að sinna sínu starfi. Það fer mikill tími í að mæla, rýna í gögn og ákveða breytingar. Ef við ætlum að búa til frambærilegt íþróttafólk þá þarf að byrja að safna mæla og safna gögnum snemma og tryggja að ekki sé verið að sóa tíma íþróttafólksins í vitleysu með nálgun sem ekki virkar.
Comments